En þau eru fleiri störfin hjá ríkinu sem hafa horfið á braut, meðal annars Loftskeytastöðin sem lögð var niður.

Vestmannaeyjabær hefur því átt undir högg að sækja gagnvart ríkisvaldinu þar sem hugmyndir hafa verið uppi um enn frekari fækkun, til að mynda hjá lögreglunni en það tókst að verja þær. Fjöldi mála er í biðstöðu hjá bænum og lítið hefur frést af öðrum.

Hvar er Menningarhúsið?
Sex ár eru síðan málefni Menningarhúss komu fyrst inn á borð bæjaryfirvalda en samþykkt var á fundi bæjarráðs 15. maí árið 2000 að kanna aðkomu ríkisins að byggingu slíks húss. Hefur málið verið að velkjast í bæjarkerfinu síðan og enn hefur engin niðurstaða fengist. Ríkið samþykkti þó fyrr alþingiskosningarnar 2003 að leggja til fjármagn í 400 milljóna Menningarhús. Ríkið ætlaði að leggja 100 milljónir í safnhluta og 180 milljónir gegn 120 milljón króna framlagi bæjarins. Nefnd var lengi vel starfandi um Menningarhús en lítið hefur borið á henni síðustu misseri, alla vega frá því að meirihluti Andrésar Sigmundssonar og Vestmannaeyjalistans sprakk á viljayfirlýsingu Andrésar um kaup á Fiskiðjunni undir Menningarhúsið.

Var talað um trúnaðarbrest og hafði Andrés ekki leitað samþykkis samstarfsaðilanna áður en hann skrifaði undir. Engin ákvörðun hefur verið tekin um næstu skref en ýmsar hugmyndir hafa verið uppi. Árni Johnsen lagði fram róttækustu tillöguna sem fól í sér að grafa húsið inn í hraunið og gera það þannig einstakt en hugmyndir bæjaryfirvalda hafa verið frekar á þá leið að nýta það húsnæði sem til er í bænum og nú síðast voru uppi hugmyndir um að nýta húsnæði Ísfélagsins við Strandveg.


Brostnar vonir
Á síðustu sex árum hafa nokkrar hugmyndir og tillögur komið inn á borð bæjaryfirvalda um flutning á stofnunum ríkisins til Vestmannaeyja. �?rjú störf fengust þegar Fiskistofa opnaði útibú í Eyjum en nokkrum árum áður hafði fjórum starfsmönnum Loftskeytastöðvarinnar verið sagt upp eða þeim boðinn flutningur í nýjar höfuðstöðvar Vaktstöðvar siglinga í Reykjavík. Eins hefur verið samþykkt að hefja viðræður við einkaaðila um starfsemi í Eyjum.

Til að mynda var Guðjóni Hjörleifssyni, þáverandi bæjarstjóra, falið í byrjun árs 2000 að ræða við fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar um að hluti starfsemi fyrirtækisins yrði í Eyjum. Ekkert varð af því. Guðrún Erlingsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi V-listans, lagði fram tillögu í október árið 2000 um að hefja viðræður um að starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa yrði flutt til Eyja. Ekkert varð af því.

Greinin birtist í heild sinni í Fréttum á morgun.