Mikilvægt er að framkvæmdin nái að tryggja hámarksöryggi þessara mannvirkja eins og Sjóvá hefur bent á að nauðsynlegt sé að gera. Sjóvá kynnti sína leið með tvöföldu vegriði milli akstursbrauta á Suðurlandsvegi og lýsingu sem staðsett er milli akstursbrautanna. Sjóvá hefur líka kynnt þann möguleika að ljúka tvöföldun og lýsingu á fjórum árum með því að farin verði leið einkaframkvæmdar. Nauðsynlegt er að samgönguráðherra skoði það vandlega.

Rétt er að óska samgönguráðherra og þingmönnum til hamingju með þennan langþráða dag. Vinir Hellisheiðar hófu umræðuna um breikkun og lýsingu Suðurlandsvegar fyrir 7 árum. Á þeim tíma komu stöðugt fleiri og tóku þátt í umræðunni og þessi framkvæmd er nú aðaláhersla sveitarstjórna og alþingismanna í kjördæminu. Samstaðan sem myndaðist hefur skilað málinu áfram og nú er að tryggja að tvöföldun og lýsing Suðurlandsvegar verði tryggð á sem skemmstum tíma.