Í upphaflegum ályktunardrögum var málsgrein þar sem sagði, að endurbyggður Reykjavíkurflugvöllur og samgöngumiðstöð styrki einnig miðborg Reykjavíkur með auknu millilandaflugi einkaþotna og smærri flugvéla. �?essi málsgrein var tekin út í vinnu starfshóps og er ekki í endanlegri ályktun.
Talsverðar umræður urðu um málið. Halldór Jónsson hvatti m.a. til þess að flugvöllurinn yrði áfram á núverandi stað. Sagðist hann ekki telja Hólmsheiði heppilegt flugvallarsvæði og lagði þess í stað til, að þar yrði byggt upp háskólasvæði fyrir Háskólann í Reykjavík.
Aðrir fögnuðu niðurstöðu óbirtrar skýrslu, sem verið hefur í fréttum undanfarið, að flugvöllur á Hólmsheiði sé heppilegasti kosturinn.
Ýmsir urðu til að benda á, að í ályktuninni væri ekki talað nákvæmlega um hvar í Reykjavík flugvöllurinn skuli vera og hún bindi því ekki hendur flokksforustunnar og frambjóðenda.

Kaflinn um flugmál í samgönguályktuninni er eftirfarandi:

Aukin notkun á farþegaflugi ásamt útboði á flugþjónustu til jaðarbyggða hefur skapað tryggari rekstrargrundvöll fyrir innanlandsflug. Landsfundur hvetur til áframhaldandi stuðnings á flugleiðum til jaðarbyggða, þó þannig að hagkvæmni sé gætt í hvívetna. Jafnframt hvetur landsfundur til þess að Reykjavíkurflugvöllur gegni áfram lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs. Uppbygging heilbrigðisþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og helstu menntastofnana landsins er í Reykjavík og því er eðlilegt að landsmenn allir hafi eins greiðan aðgang að þeirri þjónustu og kostur er. Mikilvægt er að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll en núverandi flugstöð er úrelt og hamlar aðstöðuleysi þar m.a. samkeppni í innanlandsflugi. Landsfundur hvetur til þess að björgunarþyrlur landsmanna verði staðsettar víðar en á suðvesturhluta landsins.

Landsfundur hvetur til áframhaldandi uppbyggingar á aðstöðu fyrir millilandaflug á Keflavíkurflugvelli og að hraðað verði uppbyggingu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli enda er öflugt millilandaflug styrkleiki fyrir stöðu Íslands í alþjóðavæðingunni. �?á skal einnig horft til þess að rýmka heimildir stærri flugvalla til að taka á móti loftförum erlendis frá. Tekið er undir áform um að færa rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis. Lögð er áhersla á að bæta enn frekar rekstrarumhverfi íslenskra flugfélaga þannig að þau geti áfram dafnað í alþjóðlegri samkeppni.