Gestirnir úr Garðabæ byrjuðu mjög vel í leiknum og komust í 1:5 en með mikilli baráttu tókst Eyjastúlkum að minnka muninn og halda í við Íslandsmeistarana. Eyjastúlkur náðu m.a. að jafna í þrígang en Stjarnan skoraði síðasta mark hálfleiksins og var yfir 12:13.

Síðari hálfleikur fór ekki vel af stað fyrir ÍBV því Stjarnan skoraði átta mörk gegn aðeins einu marki ÍBV á fyrstu tíu mínútunum og komust í 13:21. En enn á ný sýndu Eyjastúlkur mikinn baráttuhug og þegar tvær mínútur voru til leiksloka var staðan orðin 24:26 og ÍBV með boltann. En þeim tókst ekki að skora og gestirnir skoruðu síðustu tvö mörk leiksins.

�?ar með lauk ÍBV keppni í Íslandsmótinu en liðið hlaut átján stig og endaði í sjöunda sæti. Aðeins átta leikmenn voru á leikskýrslu í leiknum í dag og því aðeins einn varamaður til taks. Auk þess voru í byrjunarliðinu þær Ingibjörg Jónsdóttir og Edda Eggertsdóttir sem æfa ekkert með liðinu en fjarverandi voru þær Hekla Hannesdóttir og Renata Horvath.

Eins og áður hefur komið fram er óljóst hver örlög liðsins verða, hvort ÍBV tefli fram kvennaliði á næsta tímabili.

Mörk ÍBV: Pavla Plaminkova 10/6, Pavla Nevarilova 6, Ingibjörg Jónsdóttir 5, Sædís Magnúsdóttir 2, Anna María Halldórsdóttir 1.

Varin skot: Ekatarina Djukeva 16.