�?ó er annað verra við þær ásakanir að VG mótmæli á fjöllum en ekki í byggð og það er að verið sé að afvegaleiða umræðuna frá þeim sem ábyrgðina ber, t.d. hvað varðar málefni Hellisheiðar.

Dæmið er þannig sett upp að safnæðarnar á Hellisheiði hafi orðið að veruleika vegna þess að VG mótmælti ekki nóg eða alltof seint en ekki vegna þess að meirihlutinn ákvað að ganga svona frá þeim. VG og aðrir umhverfissinnar eru því allt í einu orðnir sökudólgurinn í málinu. Staðreyndin er auðvitað sú að VG mótmælti fullum hálsi frágangi umræddra safnæða á Hellisheiði en virðist bara ekki hafa mótmælt nóg eins og umræðan er sett upp. Af þessu hlýtur þá að mega álykta að VG sé eini raunverulegi málsvari umhverfisins því ef VG mótmælir ekki nóg er framkvæmt á kostnað umhverfisins án vandkvæða.

Umhverfismat vegna stækkunar Hellisheiðarvirkjunar fór fram á árunum 2005-2006 og Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdina með skilyrðum í mars 2006. Meðal skilyrða var að skoða nánar í samvinnu við Umhverfisstofnun þann kost að grafa safnæðar í jörð til að draga úr umhverfisáhrifum.

Ekki virðist hafa komið mikið út úr þeirri könnun og safnæðarnar blasa ófrýnilegar við hverjum manni sem ferðast yfir Hellisheiði en við biðjum ykkur ágætu vegfarendur að láta ekki áróðursmaskínurnar, þar að auki, trufla vegsýn ykkar. Góða ferð.

Arndís S. Sigurðardóttir skipar 8. sæti og Ragnheiður Eiríksdóttir skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.