Gönguhópur frá Vestmannaeyjum var á Hornströndum um síðustu helgi og var á göngu í snarbrattri hlíð í Miðfelli þegar Hjördís Kristinsdóttir féll 30 til 40 metra og viðbeinsbrotnaði. Mikil mildi var að ekki fór verr en Hjördís var flutt með varðskipi til Ísafjarðar þar sem hún fékk aðhlynningu.
Díana Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, fylgdi henni til Ísafjarðar en þær voru báðar staðráðnar í því að koma til baka og voru komnar í Hornbjargsvita laust eftir hádegi daginn eftir. Verður það að teljast afrek að ganga viðbeinsbrotin að Horni eftir að slysið varð, ferðast sjóleiðis til og frá Ísafirði að Horni og ganga eftir það alla leið að Hornbjargsvita.