Sjötta stigamóti í Kaupþingsmótaröðinni í golfi lauk í dag. Lítið fór fyrir rigningu í Vestmannaeyjum í dag og í raun hefur verið ágætt golfveður, smávegis vindur sem gerði kylfingum dálítið erfitt fyrir en annars sól og þurrt. Stefán Már Stefánsson, GR lék hringina tvo á samtals 142 höggum en hann lék á tveimur höggum undir pari í gær en fjórum yfir í dag og lauk því á tveimur yfir pari vallarins. Annar varð Haraldur Hilmar Heimisson, GR á 144 höggum og þriðji Sigurþór Jónsson, GK á 146 höggum.