Fram kom í máli fulltrúa meirihlutans í framkvæmda- og veitustjórn Árborgar á fundi í síðustu viku að fresta skuli áætluðum framkvæmdum við göngustíga á Selfossi. Verkið þætti of lítið til útboðs og langt liðið á árið. „Við erum að velta því fyrir okkur hvort það borgaði sig að bjóða þetta út. Verktakar líta ekki við svona litlum verkum. Þess vegna ætlum við að fara vel yfir þessi mál og reyna jafnvel að bæta fleiri verkefnum inn í þennan pakka. Það yrði þá líklegra að einhverjir myndu bjóða í verkið. Þetta yrði gert öðru hvoru megin við áramót,“ segir Þorvaldur Guðmundsson, formaður Framkvæmda- og veitustjórnar.