Félagar í Kiwanisklúbbnum Helgafelli minnast þess um þessar mundir, að liðin eru fjörtíu ár frá stofnun hans, 28. september árið 1967. Garðar Sveinsson, sem þá var framkvæmdastjóri Vélsmiðj­unnar Völundar, var aðaldriffjöðrin að stofnun klúbbsins. Og margir þeirra sem gerðust stofnfélagar klúbbsins voru einmitt starfsmenn í Völundi. Stofnfundurinn var haldinn í Ísfélaginu og stofnfélagar voru 28 talsins, eru 5 þeirra enn starfandi í Helgafelli. Kiwanisklúbburinn Helgafell hefur öll þessi 40 ár verið mjög virkur í bæjarlífi Vestmannaeyja og látið til sín taka á mörgum sviðum og reynt að láta gott af sér leiða.