Sumarið 1974 vann ég í Fiskiðjunni í Vestmannaeyjum sem einhverjir þokkapiltar reyndu að kveikja í síðustu nótt. Þetta var árið eftir gos. Ég er ennþá montinn yfir því hvað ég var duglegur að vakna á morgnana. Maður þurfti að mæta klukkan sjö. Fór í vinnunna á pallbíl Stebba Ungverja sem bjó á næsta bæ við Suðurgarð þar sem ég dvaldi. Foreldrum mínum hefði aldrei komið til hugar að senda mig í verbúð. Í staðinn bjó ég þarna syðst á eyjunni hjá miklum sæmdarhjónum, Óla Þórðar og Svölu Johnsen. Ég var ekki farinn að drekka. Mínar skemmtanir voru bíóið, langir göngutúrar um eyjuna og bækur um sjómannslíf sem voru til í Suðurgarði.