Margrét Lára Viðarsdóttir var nú fyrir stundu útnefnd íþróttamaður ársins 2007. Viðurkenningin er mesti heiður sem íslenskum íþróttamanni hlotnast ár hvert og á Margrét Lára fyllilega skilið að vera íþróttamaður ársins. Margrét hefur undanfarin ár borið höfuð og herðar yfir aðrar knattspyrnukonur í landinu, skoraði t.d. 38 mörk í aðeins 14 leikjum með Val í sumar og sló þar með eigið markamet í Íslandsmótinu. Hún er jafnframt markahæsti leikmaður íslenska A-landsliðsins þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul.