Nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra skipaði í maí 2006 til að vinna að stefnumótun í menntunarmálum fanga hefur lokið störfum og skilað skýrslu til ráðherra. Nefndin leggur til að Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi gegni áfram lykilhlutverki í menntun fanga á Litla-Hrauni og að skólanum verði einnig falið það hlutverk að sjá til þess að föngum almennt standi til boða að stunda nám. Til að ná þessum markmiðum leggur nefndin til að náms- og starfsráðgjafi verði ráðinn að Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi hið fyrsta, sem veiti jafnframt náms- og starfsráðgjöf til fanga á öllu landinu.