Þann 1. febrúar nk. ætlar Kvenfélag Hrunamannahrepps að halda þorrablót í fyrsta sinn. Fyrir allnokkrum árum sá Björgunarfélagið Eyvindur um þorrablót til margra ára hér í hreppnum en þegar þau blót lögðust af, tók Hótel Flúðir við boltanum og hefur haldið þorrablót fyrir Félag eldri borgara og jafnframt annað þorrablót fyrir almenning allan. Þegar sýnt þótti að Hótel Flúðir myndi ekki halda þorrablót fyrir almenning í ár tók kvenfélagið sig til og ákvað að halda þorrablót nú, en með breyttu sniði. Ekki verður þorrahlaðborð heldur taki fólk með sér trog eða bakka, fullt matar og sjái þannig sjálft um matföng, eins og tíðkast víða um land. Þetta er nýnæmi hér í sveit, sem við kvenfélagskonur vonum svo sannarlega að fólk taki vel í. Fyrir þá sem ekki eiga trog þá er hægt að panta trog til eignar á kr. 1500.- um leið og miði er pantaður.