Fimmti riðill í Skólahreysti fór fram í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi í síðustu viku. Alls öttu níu grunnskólar á Suðurlandi kappi í æsispennandi keppni. Fjórir skólar leiddu keppnina sem var mjög jöfn og spennandi en Hvolsskóli hafði sigur að lokum eftir bestan árangur í hraðaþraut.

Hver skóli teflir fram fjögurra manna liðum sem keppa í upphífingum og dýfum stráka og armbeygjum og hreystigreip stelpna. Síðasta þrautin, hraðaþraut, er hindrunarbraut sem hlaupin er á tíma. Vallaskóli tók forystuna í upphafi en Hvolsskóli var skammt undan ásamt Grunnskólanum á Hellu.