Stefnumót DV og dv.is verður haldið í Hvíta húsinu á Selfossi á morgun, föstudagskvöld kl. 20:00, í samvinnu við Hrútavinafélagið. Ritstjórar DV, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, munu kynna stefnu blaðsins og svara fyrirspurnum. Þá mun Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri dv.is segja frá vefnum sem þegar hefur náð sterkri stöðu á markaði og er nú á meðal mest lesnu fréttavefja á landinu. Lýður Árnason, læknir og kvikmyndaframleiðandi mun stjórna spurningakeppni þar sem takast á tvö þriggja manna lið undir forystu Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins. Til mikils er að vinna því sigurliðið fær 100 þúsund krónur sem það má ánafna í þágu baráttunnar gegn fíkniefnum.