Hlaupár er fjórða hvert ár nema aldamótaár. Nafnið er sennilega komið úr fornensku og dregið af því að dagsettar hátíðir hlaupa þá yfir einn vikudag milli ára.

Hlaupársdagur var 24. febrúar hjá Rómverjum. Á Íslandi var Matthíasmessa sama dag einnig kölluð hlaupársmessa en hlaupársdeginum skotið inn þann 25. Á síðari öldum hefur 29. febrúar þó verið talinn hinn eiginlegi hlaupársdagur.

Hérlendis er sá siður einkum bundinn hlaupársdegi að konur geti beðið sér eiginmanns.