Kostnaður við endurbætur sundlaugarinnar á Kirkjubæjarklaustri verður 25-30% hærri en áætlað var í upphafi. Stefnt er að því að verkinu ljúki um miðjan mars en sundlaugin hefur verið lokuð í rúmt ár. Endanlegur kostnaður verður á bilinu 160-170 milljónir króna.

Bjarni Daníelsson, sveitarstjóri, segir að allmargir kostnaðarliðir verksins hafi hækkað. „Það er ekkert eitt sérstaklega sem hefur verið misreiknað. Það eru allmargir liðir sem hafa hækkað og fjárútlát því meiri en menn gerðu ráð fyrir í upphafi. Það er að vissu leyti eðlilegt enda fjárhagsáætlunin þriggja ára gömul, segir Bjarni.