Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sakaði Landsvirkjun á Alþingi í dag um fjárkúgun, með því að beita vinsælu máli, uppbyggingu netþjónabúa, til að koma áfram óvinsælu máli, virkjunum í neðri hluta Þjórsár.
Mörður vakti athygli á því að haft er eftir Þorsteini Hilmarssyni, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, í Fréttablaðinu í dag að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir raforkusölu Landsvirkjunar til gagnavers Verne Holding á Keflavíkurflugvelli, að hafist verði handa við virkjun Þjórsár. Hann minnti á að það væri Alþingis að framselja vatnsréttindin í Þjórsá.