Meistaraefnin úr Haukum geta prísað sig sæla með að hafa lagt ÍBV að velli í Vestmannaeyjum í dag. Eyjamenn, sem hafa verið límdir við botn N1-deildarinnar í vetur, komu flestum á óvart í síðustu umferð með að leggja næst efsta lið deildarinnar, Fram, að velli á útivelli. Í dag var svo komið að því að taka á móti efsta liðinu, Haukum og úr varð hörkuviðureign. En eins og sönnum meisturum sæmir þá voru lukkudísirnar með Haukum á lokakaflanum og lokatölur urðu 24:28 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 14:14. Þar með er ÍBV endanlega fallið úr efstu deild.