Grindavík lagði ÍBV 1-0 í A deild Lengjubikars karla í Reykjaneshöllinni í gærkvöldi en um var að ræða frestaðan leik úr riðlakeppninni. Grindvíkingar voru öllu sterkari aðilinn í leiknum og skoruðu sigurmarkið nokkrum mínútum fyrir leikslok. Þá sneru Grindvíkingar vörn í sókn, Scott Ramsay sendi fyrir á Alexander Veigar Þórarinsson sem skoraði sigurmarkið. Bæði lið voru með fjögur stig í riðli fjögur fyrir leikinn en Grindvíkingar tryggðu sér þriðja sæti riðilsins með þessum sigri í gærkvöldi.