Þjóðhátíð Vestmannaeyja lauk eins og venja er undir morgun í dag, mánudag og fara Þjóðhátíðargestir nú að huga að heimferðinni. Það gæti þó orðið erfitt um vik fyrir marga því enn er ófært með flugi og veðurspáin er ekki hagstæð. Flugfélag Íslands áætlaði að fljúga 23 ferðir til og frá Eyjum í dag, með rúmlega eitt þúsund farþega og hjá Flugfélagi Vestmannaeyja var áætlað að fljúga með um átta til níu hundruð manns upp á Bakka. Næsta athugun hjá Flugfélagi Íslands er 11.20 en talsvert hefur þó létt til síðan í morgun.