ÍBV tekur á móti Víkingi frá Reykjavík í dag á Hásteinsvellinum en leikur liðanna hefst klukkan 14.00. Eyjamenn vilja sjálfsagt næla sér í þrjú stig enda er hlaupin nokkur spenna í toppslaginn eftir leiki gærkvöldsins þar sem Stjarnan tók Selfoss hreinlega í kennslustund og sigraði 6-1 hvorki meira né minna. ÍBV er sem fyrr á toppnum með 40 stig, Selfoss er enn í öðru sæti með 37 og Stjarnan er í þriðja með 34. ÍBV á leikinn í dag til góða en þessi þrjú lið berjast um sæti tvö í úrvalsdeild að ári.