Ljóst er að viðkomubrestur hefur orðið í lundastofninum í Vestmannaeyjum fjórða árið í röð. Útlit er fyrir að mjög lítið verði um pysju í ár og að hún komi mjög seint. Þær pysjur sem enn eru lifandi í holunum eru mjög litlar og óvíst hvort þær lifa. Ástæðan er sú að lundinn hefur fundið mjög lítið af síli til að fóðra ungana og hafa þeir því verið í svelti. Sem dæmi má nefna að vaxtatími pysjunnar er 39 dagar við eðlilegar kringumstæður, en er nú um fimmtíu dagar.