Gunnar Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Flúðafisks, telur að vinna mætti mun meira verðmæti úr sjávarafla landsmanna með því t.d. að hirða hausa af bolfiski í afla frystitogaranna. Sér vitanlega hirði aðeins tvær útgerðir frystiskipa hausana að hluta; Ögurvík og FISK Seafood á Sauðárkróki.

Bendir hann á að útgerðir rússnesku frystiskipanna í Barentshafi hirði alla fiskhausa og í núverandi árferði Íslendinga sé afar brýnt að útgerðir reyni að hámarka aflaverðmætið sem allra mest.