Margrét Lára Viðarsdóttir er gengin í raðir sænska félagsins Linköping og skrifaði undir eins árs samning við félagið í dag eftir að hafa komist að samkomulagi um að ganga til liðs við það um helgina. Hún staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net nú í kvöld. Fjöldi liða um allan heim hafði verið á eftir Margréti Láru en eftir að hún hafði skoðað aðstæður hjá Linköping fór hún aldrei leynt með að það yrði hennar fyrsti kostur kæmist hún að samkomulagi við félagið. Það er nú frágengið og ljóst að hún spilar í Svíþjóð á næsta ári.