Lögreglan hafði í ýmis horn að líta um helgina og í vikunni sem leið. Afskipti voru höfð af manni sem kom út af einum af veitingastöðum bæjarins með poka sem í var áfengur bjór. Viðurkenndi viðkomandi að hafa keypt bjórinn inni á staðnum, en samkvæmt áfengislögum er óheimilt að bera áfengi út og inn á staði sem hafa vínveitingaleyfi. Má því rekstraraðili staðarins búast við því að mál hans verði tekið fyrir hjá sýslumanni.