Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur nú ákveðið að heimila takmarkaðar loðnuveiðar íslenskra skipa í rannsóknaskyni. Um er að ræða 15.000 tonna kvóta. Í reglugerðinni er kveðið á um að stjórn og skipulag veiðanna skuli framkvæmt undir stjórn og í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunina. Fram hefur komið að útgerðarmenn og skipstjórar loðnuskipanna eru vongóðir um að með því náist að finna nægjanlegt magn af loðnu þannig að unnt verði að gefa út aflamark í loðnu.