Höfnin og Víkin í Eyjum iða af lífi þessa daga og hefur verið svo í margar vikur. Talsvert er þar um smásíld, sem fuglarnir nýta sér og hjá þeim er veisla uppá hvern dag. Og það er alltaf jafn stórkostlegt að sjá náttúruna í öllu sínu veldi. Að sjá Súluna steypa sér úr margra tuga metra hæð í sjóinn eftir æti. Hvernig hún setur vængina í þotustellingu og rétt áður en hún smýgur í sjóinn leggur hún vængina þétt að skrokknum og verður eins og oddhvasst spjót á fullri ferð.