Engar jákvæðar fréttir var að fá af leit skipa á vegum Hafrannsóknastofnunar að loðnu í gær, samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Sigurðssyni, fiskifræðingi og sviðsstjóra á stofnuninni. Þorsteinn sagði um miðjan dag í gær að rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefði verið að leita út af Suðausturlandi og ekkert fundið. Þá hefði skip frá Vestmannaeyjum, sem tekur þátt í leitinni að loðnunni, verið inni á Ísafjarðardjúpi vegna brælu og verið að bíða eftir veðri til að skoða vestursvæðin.