Brýnasta verkefni okkar Íslendinga er að horfa fram á veginn og hefja kröftugt uppbyggingarstarf nú þegar. Það er nauðsynlegt að skapa atvinnulífinu nýtt svigrúm og ný tækifæri til að nýta krafta þeirra fjölmörgu, sem misst hafa vinnuna undanfarna mánuði. Við eigum að fara í opinberar og mannaflsfrekar framkvæmdir, aðstoða einstaklinga með góðar hugmyndir við að stofna fyrirtæki, þróa nýjar afurðir í matvælaframleiðslu með áherslu á gæði og hollustu, efla ferðaþjónustu sem byggir á náttúru, menningu og hreinni orku.