Reykjavík er heimahöfn flestra fiskiskipa eða alls 88 í lok síðasta árs samkvæmt samantekt Hagtíðinda sem byggja á skrá Siglingamálastofnunar. Þar á eftir kemur Grindavík með 81 skip skráð. Í Reykjavík voru einnig flestir opnir fiskibátar með heimahöfn, alls 35, en 30 bátar áttu heimahöfn í Hafnarfirði. Flest vélskip áttu heimahöfn í Grindavík eða 66 skip, 43 voru skráð með heimahöfn í Reykjavík og 42 í Vestmannaeyjum. Í Reykjavík voru 10 togarar skráðir með heimahöfn og 7 í Vestmannaeyjum og á Akureyri.