Þegar þetta er ritað rétt um miðnætti hafði fyrr í kvöld mælst vindhviða við Hvamm undir Eyjafjöllum upp á 56 m/s*. Meðalvindhraði eða veðurhæðin hefur verið mikil og vaxandi í kvöld syðst á landinu. Á Vatnsskarðshólum í Dyrhólahverfi voru þannig 29 m/s (39 m/s í hviðu), á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum 24 m/s (41 í hviðu) og á Stórhöfða 41 m/s. Slíkur vindur er vitanlega óskaplegur, en um 32 m/s þarf til að teljast fárviðri eða 12 vindstig. Fréttir hafa einmitt verið sagðar af slæmu veðri í Vestmannaeyjum í kvöld.