Ný aðstaða fyrir sjúkraþjálfun hefur verið opnuð í Heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli. Slík aðstaða hefur ekki verið fyrir hendi á svæðinu og hefur sjúkraþjálfari staðsettur á Hellu ekki annað eftirspurn. Í frétt á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands kemur fram að fólk hafi þurft að sækja þjónustu sjúkraþjálfara til Selfoss eða jafnvel lengra. Nýja aðstaðan á Hvolsvelli bæti verulega heilbrigðisþjónustu í héraðinu og sé mikil lyftistöng fyrir samfélagið.