Mál slökkviliðsmanns, sem játað hefur aðild að íkveikju í Vestmannaeyjum, er í athugun og ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um hvort honum verði vikið úr slökkviliðinu, að sögn Ragnars Baldvinssonar slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsmaðurinn er á meðal þriggja manna sem hafa játað mismikla aðild að íkveikjunni. Þeim var sleppt úr haldi í gærkvöldi eftir játninguna og ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um ákæru.