Svartur svanur sást fyrir nokkrum dögum í Lóninu á Hornafirði og daginn eftir einn í Álftafirði en ekki er vitað hvort þar hefur verið sami fuglinn og í Lóninu. Svartir svanir koma hingað árlega og hafa mest verið fimm fuglar á landinu í einu þar af þrír í Lóninu. Frétta- og upplýsingavefur Hornafjarðar hefur eftir Birni Arnarsyni fuglaáhugamanni að svartir svanir hafi aldrei verpt hér á landi og skýringu þess telur hann vera að þetta séu ungfuglar sem hingað koma en svanir byrja ekki varp fyrr en þeir eru 4-5 ára.