Bæjaryfirvöld í Árborg hafa ákveðið að fresta því í nokkra mánuði að taka í notkun nýjan grunnskóla á Stokkseyri sem er í smíðum. „Samkvæmt verkáætlun við upphaf byggingaframkvæmda við skólann á Stokkeyri var gert ráð fyrir að afhending byggingar yrði í júlí 2009. Vegna aðstæðna í kjölfar efnahagskreppunnar sem skall á í haust hefur afhendingu á nýju skólahúsnæði á Stokkseyri verið seinkað fram í desember 2009. Að öðru leyti ganga framkvæmdir við skólabygginguna vel miðað við þær aðstæður sem eru í byggingariðnaði í dag“, segir Sigurður Bjarnason, verkefnisstjóri fræðslumála hjá Árborg, í samtali við Dagskrána.