Það er óhætt að segja að tónleikarnir Tríkot og Lúðró hafi heppnast einstaklega vel í gærkvöldi en húsfyllir var á tónleikunum, um 550 manns. Alls stóðu tónleikarnir yfir í rúma tvær klukkustundir þar sem hver smellurinn á fætur öðrum var fluttur af 50 manna sameiginlegri lúðrasveit frá Vestmannaeyjum og Reykjavík, stuðbandinu Tríkoti og gestasöngvurum en alls stóðu um 60 manns á sviðinu þegar mest var. Áhorfendur voru svo ánægðir að hópurinn var tvívegis klappaður upp.