Ég hef verið beðin um að skrifa upp á rúmlega 730 milljarða kúlulán. Það er að segja, lánið stendur í 730 milljörðum núna, en þetta er myntkörfulán og þeir sem sitja uppi með slík lán vita að þau hafa ekki gert annað en hækka síðustu misseri. Mér er sagt að kúlulánið sé til að borga skuldir sem ég hafi stofnað til í útlöndum. Ég kannast ekki við að hafa gert það. Mér er líka sagt að til séu lögfræðiálit um að ég beri ábyrgð á þessari upphæð en ég hef ekki fengið að sjá það. Ég hef reyndar ekki einu sinni fengið að sjá samninginn sem liggur að baki kúluláninu.