Nýtt fiskveiðiár hófst á miðnætti í skugga mikils niðurskurðar á kvótum mikilvægra tegunda. Mestu munar að ýsukvótinn á þessu fiskveiðiári verður heilum 30 þúsund tonnum minni en á síðasta fiskveiðiári, eða aðeins 63 þúsund tonn, samanborið við 93 þúsund tonn á nýliðnu fiskveiðiári. Þetta jafngildir ársafla fimm til sex togara, ef þeir veiddu einungis ýsu.