Í þau þúsund ár sem við Íslendingar höfum lifað á fiskveiðum og –vinnslu hefur aldrei ríkt eins mikil óvissa um framtíð atvinnulífs okkar. Aldrei hefur deilan um nýtingu sjávarauðlindarinnar og sjávarútveginn verið eins mikil og núna. Ógnir um eignaupptöku og hugsanlegt framsal nýtingarréttar til erlendra þjóða eru nú grár og helkaldur veruleiki. Margir íbúar sjávarbyggða eru nú óttaslegnir og í þetta skipti ekki vegna náttúrulögmála heldur vegna mannaverka.