Í sumar samþykkti Alþingi, með naumum meirihluta, að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Nú er hafið langt og kostnaðarsamt umsóknarferli sem mun að öllum líkindum enda með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tekin verður afstaða til þess hvort Ísland gangi í ESB. Heimssýn eru þverpólitísk samtök sem taka afstöðu gegn aðild Íslands að ESB og telja hagsmunum Íslendinga best borgið utan sambandsins. Við, sem sitjum á Alþingi fyrir þrjá mismunandi stjórnmálaflokka, munum starfa náið með Heimssýn í þeirri baráttu sem framundan er.