Tveir þrestir flögruðu inn í matvöruverslun Krónunnar í Vestmannaeyjum síðdegis. Fuglarnir sýndu ekkert fararsnið á sér, þeir flugu á milli vöruhillna og reyndu að kroppa í góðgæti. Starfsmenn Krónunnar gerðu hvað þeir gátu til að koma fuglunum út. En jafnharðan og starfsmaður hafði stigið upp í vinnutröppur til að reyna að koma hönd á fuglana flögruðu þeir í næstu hillu. Svona hélt eltingarleikurinn áfram viðskiptavinum til töluverðrar kátínu. Fólk virtist vera í hátíðarskapi því nærvera fuglanna færði frekar bros á andlit þess en fýlusvip.