Það verður ekki annað sagt en að dramatíkin hafi verið allsráðandi á lokakaflanum í leik ÍBV og Keflavíkur. Keflvíkingur byrjuðu á að skjóta í stöng, Tonny Mawejje skaut í slá í algjöru dauðafæri, Keflvíkingar fengu rauða spjaldið og þegar öll von virtist úti, kom varnarmaðurin Eiður Aron Sigurbjörnsson, klippti boltann á lofti og negldi boltanum í netið. Þvílíkt og annað eins mark hefur ekki sést í háa herrans tíð á Hásteinsvellinum og að það skuli vera sigurmark í uppbótartíma, gerir markið enn flottara. Lokatölur 2:1 og Eyjamenn enn við toppinn.