Íslandsmeistarar Hauka fengu líklega meiri mótspyrnu en margir áttu von á þegar liðið sótti B-lið ÍBV heim í 16-liða úrslitum Eimskipsbikarsins. B-lið ÍBV er skipað eldri og reyndari leikmönnum sem flestir æfa ekki handbolta lengur en í liðinu mátti m.a. finna markvörðinn Sigmar Þröst Óskarsson, línumennina Svavar Vignisson, sem þjálfar kvennalið ÍBV og Erling Richardsson, þjálfara HK, stórskyttuna Guðfinn Kristmannsson, aðstoðarþjálfara ÍR og bæjarstjórann Elliða Vignisson. Lokatölur í dag urðu 21:31 eftir að staðan í hálfleik var 11:6 en mikil og góð stemmning var á leiknum.