Eyjamenn geta prísað sig sæla með að hafa náð í stig gegn frískum Víkingum í dag þegar liðin áttust við í 1. deild karla í Eyjum. Víkingar voru mun sterkari lengst af í leiknum og í heildina litið áttu þeir skilið meira en bara eitt stig í dag. Eyjamenn náðu sér alls ekki á strik nema um stundarsakir í seinni hálfleik. Víkingar komust í 29:28 þegar hálf mínúta var eftir og allt benti til þess að gestirnir næðu að halda út en þá sveif Vignir Stefánsson inn úr horninu og skoraði jöfnunarmarkið um leið og lokaflautan gall. Lokatölur 29:29 en Eyjamenn eru nú með jafn mörg stig og Grótta og ÍR en þessi þrjú lið eru á toppi deildarinnar.