Eyjafréttir.is höfðu í gær spurn að því að Elliði Vignisson bæjarstjóri sæti fund með sendiherra Rússa á Íslandi vegna Landeyjahafnar. Aðspurður staðfesti Elliði þetta. „Jú það er rétt, í gær fundaði ég með Andrey V. Tsyganov sendiherra Rússa á Íslandi.“ Elliði segir að þeir hafi fyrst og fremst rætt um Landeyjahöfn og að hann hafi í kjölfarið óskað eftir því að sendiherrann beitti sínum tengslum og þekkingu til þess að kanna hvort mögulegt sé að liðsinna í erfiðleikum hafnarinnar en víða í Rússlandi eru hafnaraðstæður erfiðar og þekking á siglingum mikil.