Eyjamenn sprungu loksins út í Íslandsmótinu þegar liðið tók á móti Stjörnunni á Hásteinsvelli í kvöld. Tryggvi Guðmundsson var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og stýrði sóknarleik Eyjaliðsins eins og herforingi. Það var við hæfi að þessi mikli markaskorari, bætti markamet í efstu deild með gullfallegu marki úr aukaspyrnu á 76. mínútu og kom ÍBV þar með í 3:1. Ian Jeffs skoraði svo síðasta markið og Eyjamenn fögnuðu vel og innilega í leikslok.