Þjóðhátíðin er hátíð okkar Eyjamanna. Þar komum við saman og gleðjumst á okkar forsendum. Við njótum þeirrar arfleifðar sem kynslóðirnar hafa borið áfram með tónlistinni, matarhefðum, venjum og í raun öllu því sem gerir okkur að Eyjamönnum. Eins og stoltu fólki sæmir bjóðum við öllum að taka þátt í þessari einlægu gleði. Niðurstaðan er hartnær 140 ára gömul hátíð sem er fyrir löngu orðin fyrirmynd allra annarra bæjar- og útihátíða. Slíkt verður ekki til úr engu og þessari stöðu verður ekki haldið nema með því að vera stöðugt á tánum.