Bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallaði um þjónustuhús, eða Brekkusviðið í Herjólfsdal á fundi sínum á fimmtudaginn síðastliðnum. Húsið var á sínum tíma reist með þeim skilyrðum að lokið yrði við bygginguna á ákveðnum tíma, sem á að ljúka í ár. Hins vegar hefur bæjarstjórn nú veitt þjóðhátíðarnefnd tveggja ára frest til að klæða húsið með náttúrusteini. Athygli vekur að Páll Scheving Ingvarsson, oddviti minnihlutans vék ekki af fundi meðan málið var tekið fyrir samkvæmt fundargerð, en Páll er jafnframt formaður þjóðhátíðarnefndar.