Um tíu prósent Eyjamanna settu nafn sitt á undirskriftarlista gegn því að hótel verði reist ofan við Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum. Aðstandandi söfnunarinnar segist ætla að halda áfram að berjast gegn því að hótel rísi á þessum stað. Töluverð umræða hefur verið í Eyjum um hugmyndir um nýtt hótel sem áformað er að reisa í gamalli malarnámu, svokallaðri Hásteinsgryfju. Efnisnámi lauk þar fyrir tæpum fjórum áratugum og hefur lengi legið fyrir að lagfæra svæðið. Það er hluti af svokölluðum Norðurklettum Eyjanna sem njóta hverfisverndar, sem er verndun án þess að vera lögformleg friðun.